Erlent

Stofna andófsfólki í hættu

Julian Assange hefur verið gagnrýndur fyrir að birta skjölin óritskoðuð.nordicphotos/AFP
Julian Assange hefur verið gagnrýndur fyrir að birta skjölin óritskoðuð.nordicphotos/AFP
Lekasíðan Wikileaks hefur nú birt öll bandarísku sendiráðsskjölin, sem hún hóf birtingu á í lok síðasta árs í samvinnu við nokkra helstu fjölmiðla heims.

Samstarfsfjölmiðlar hennar, virt dagblöð á borð við New York Times, Guardian og Le Monde, gagnrýna það að flest skjölin séu nú birt án þess að þurrka út viðkvæmar upplýsingar, sem geta stefnt einstaklingum í hættu.

Meðal annars geta stjórnvöld í löndum á borð við Kína, Búrma og Rússland auðveldlega fundið í skjölunum nöfn stjórnarandstæðinga og andófsmanna, með afleiðingum sem enginn veit hverjar verða.

Birting skjalanna hafði gengið hægt, enda var þess lengi vel gætt að birta þau ekki fyrr en samstarfsfjölmiðlarnir hefðu farið í gegnum þau og hreinsað út þessar viðkvæmu upplýsingar.

Á Twitter-síðu Wikileaks segir að ekki hafi verið um annað að ræða en að birta öll skjölin, því afrit þeirra væru þegar komin í umferð manna á milli.

Breska blaðinu Guardian hefur verið kennt um að birta lykilorð, sem veitti hverjum sem er aðgang að skjölunum. Fulltrúar Guardian segja hins vegar að á Wikileaks hefðu menn ekki átt að endurnýta gamalt lykilorð fyrir þetta viðkvæmar upplýsingar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×