Innlent

Grenlækur eða Grænlækur?

Stangveiðimenn eru ekki fyrr farnir að fagna upphafi veiðitímabilsins á föstudag, en risinn er ágreiningur um nafnið á einu vinsælasta veiðisvæðinu.

Sjóbirtingsveiðin, hefst eftir aðeins tvo daga, og er töluverð ásókn í veiðileyfi strax í byrjun. Ásókn er ekki hvað síst í vötn og ár í Vestur Skaftafellssýslu, en þar er meðal annars hinn frægi Grenlækur,- eða Grænlækur.

Eftir að hann var nefndur Grenlækur í morgunfréttum Bylgjunnar, bárust viðbrögð heimamanna í Landbroti, þar sem því nafni var kröftuglega mótmælt, því lækurinn héti Grænlækur, eða allt frá því að hann varð til eftir Skaftárelda á síðari hluta átjándu aldar.

En af hverju Grænlækur, gátu þeir ekki svarað. Þá gat heimamaðurinn Jón Helgason frá Seglbúðum ekki svarað því á sínum tíma. Grænlækur heitir hann í ferðabók Sveins Pálssonar frá 1793, en Jón Jónsson jarðfræðingur, ættaður úr Landbroti, taldi að síðan hafi nafnið breyst í Grenlæk, en svo aftur í Grænlæk, í daglegu máli heimamanna.

Loks hefur Jón Aðalstein Jónsson, fyrrverandi orðabókarstjóri bent á að einskonar flámælska gæti verið á ferð , það er að segja þegar menn segja e í stað æ, eins og bókfært er eftir austfirsku skáldi í línunum: María mer, mild og sker, í stað María mær, mild og skær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×