Innlent

Svartur svanur í Mýrdal: Bara einn af hópnum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Álftirnar voru ekkert að amast við svarta svaninum
Álftirnar voru ekkert að amast við svarta svaninum Mynd: Þórir N. Kjartansson
Svartur svanur sást í álftahóp í Mýrdalnum í síðustu viku. „Ég var að fylgjast með álftinni sem var að koma til landsins, og settist á polla og tjarnir. Síðan sá ég þennan svarta svan sem skar sig vel úr," segir Þórir N. Kjartansson, áhugaljósmyndari í Vík í Mýrdal, sem náði meðfylgjandi myndum af fuglinum.

Fullorðnir svartsvanir, eins og þeir kallast, eru eilítið smærri en álftin. Fiðurhamur fuglsins er svartur, eins og nafn hans gefur til kynna, en flugfjaðrirnar eru hvítar. Goggurinn er skærrauður með hvítri þverrönd.

Þórir hefur sérstakt dálæti á því að mynda fugla og er áhugasamur um lífshætti þeirra. Hann segir það hafa komið sér á óvart hversu gott samkomulag var milli svarta svansins og hvítu álftanna. „Þær virtust ekkert amast við honum. Hann var bara einn af hópnum. Maður hefði kannski átt von á því að þær væru leiðinlegar við hann, en svo var ekki," segir Þórir. Þetta var í fyrsta sinn sem Þórir sér svartsvan.

Svartsvanir flækjast nær árlega til Íslands og eru taldir koma úr dýragörðum í Evrópu. Algengastir eru svartsvanirnir í Ástralíu.

Myndirnar sem Þórir tók af svartsvaninum má skoða í meðfylgjandi myndasafni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×