Viðskipti erlent

Borguðu þó nokkra milljarða fyrir Hotel D´Angleterre

Viðskiptablaðið Börsen segir að kaupverðið sem Henning Remmen og fjölskylda borguðu skilanefnd Landsbankans fyrir Hotel D´Angleterre hlaupi á einhverjum hundruðum milljóna danskra kr. eða a.m.k. að sex til átta milljarða kr. Þetta hefur blaðið hefur heimildum úr danska hótelgeiranum.

Það var Remmen sem seldi íslenska félaginu Nordic Partners hótelið á sínum tíma og þá var rætt um að kaupverðið hafi verið um 800 milljónir danskra kr. eða um 16 milljarðar kr. Því er ljóst að Remmen hefur hagnast vel á því að kaupa hótelið að nýju, að því er segir á vefsíðuinni business.dk.

Salan á hótelinu hefur vakið mikla athygli í Danmörku og fjallað er um hana á viðskiptasíðum danskra fjölmiðla. Almennt ríkir mikil ánægja með að þetta krúnudjásn danska hótelgeirans sé aftur komið í hendur landsmanna. Að vísu búa Henning Remmen og frú í Sviss og hafa gert lengi og eru lítið gefin fyrir sviðsljósið.

Talsmaður þeirra hjóna segir í samtali við Börsen að endurfjárfesting þeirra í hótelinu sé hugsuð til langs tíma og ekki sé ætlunin að selja hótelið í bráð.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×