Opinberir starfsmenn hafa tekið þátt í þessu starfi af heilindum, virt réttindi annarra og ekki unnið að kröfugerð um málið á öðrum vettvangi. Hið sama verður ekki sagt um framgöngu Alþýðusambands Íslands, samherja BSRB, BHM og KÍ í réttindavörslu fyrir hönd launafólks. Það sást best á sameiginlegu minnisblaði sem ASÍ og SA lögðu fram 25. febrúar 2011 en sáu ekki ástæðu til að láta opinbera starfsmenn vita af fyrr en nokkrum vikum síðar.
Í umræddu minnisblaði kveður við allt annan tón en í vinnuhópnum. ASÍ og SA krefjast þess að réttindi opinberra starfsmanna verði skert og lífeyriskerfi þeirra breytt. Það er alvarlegt að ASÍ skuli taka sér stöðu við hlið atvinnurekenda í kröfum sínum, ekki við hlið annarra félaga sinna í baráttu fyrir bættum réttindum launafólks. Raunar er umhugsunarefni hve samhljómur í málflutningi ASÍ og SA er orðinn ríkur, en það er önnur saga.

Opinberir starfsmenn hafa verið tilbúnir til viðræðna um nýtt lífeyrissjóðskerfi, en það er hins vegar forkastanlegt að þurfa að verjast árásum á réttindi sem eru afrakstur kjarabaráttu liðinna áratuga. Lífeyrissjóðskerfi opinberra starfsmanna hefur löngum verið notað til að réttlæta lakari laun en á almennum vinnumarkaði. Að sjálfsögðu vilja opinberir starfsmenn að allir njóti sem sambærilegastra lífeyriskjara, en sú eðlilega krafa hlýtur þá einnig að gilda um launakjör. Jöfn lífeyrisréttindi og jöfn launakjör hlýtur þá að vera sameiginleg krafa alls launafólks.

Á stundum þar sem öll spjót standa á launafólki, niðurskurður og kaupmáttarrýrnun herjar á almenning, er nauðsyn á samstöðu launafólks. Umrætt minnisblað grefur undan þeirri samstöðu.