Körfubolti

Yngvi kom báðum Valsliðunum upp á innan við 24 tímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yngvi Gunnlaugsson þjálfar bæði Valsliðin.
Yngvi Gunnlaugsson þjálfar bæði Valsliðin. Mynd/Daníel
Valsmenn eru komnir upp í úrvalsdeild karla og úrvalsdeild kvenna í körfuboltanum eftir að bæði lið félagsins unnu úrslitaeinvígi sín á síðustu tveimur dögum. Yngvi Gunnlaugsson er þjálfari beggja liðanna og kom því báðum Valsliðunum upp á innan við 24 tímum.

Yngvi hafði í nóg að snúast undanfarna daga því hann var með leik fjóra daga í röð og alls léku liðin hans samtals fimm leiki á sex dögum í úrslitakeppninni þar af voru innifalin tvö ferðalög norður á Akureyri.

Karlarnir eru komnir upp í fyrsta sinn í átta ár en konurnar voru aðeins eitt ár í 1. deildinni og fóru strax upp. Karlaliðið var búið að tapa í lokaúrslitum 1. deildar karla fjögur ár í röð og sigurinn í gærkvöldi var því langþráður.

Valsmenn halda upp á hundrað ára afmæli á þessu ári og þeir eiga nú karla og kvennalið í efstu deild í þremur stærstu boltagreinunum, fótbolta, handbolta og körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×