Viðskipti innlent

Orkuveitan gat fengið milljarðalán hjá Landsbankanum

Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar.
Bjarni Bjarnason er forstjóri Orkuveitunnar.
Orkuveitan átti aðgang að átta milljarða lánalínu hjá Landsbanka Íslands á sama tíma og forstjóri fyrirtækisins sagði fyrirtækið gjaldþrota. Lán frá Landsbankanum hefði verið á verri kjörum en milljarðalán borgarinnar til fyrirtækisins, segir upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagði á blaðamannafundi í fyrradag að staða fyrirtækisins væri svo slæm að útlit væri fyrir að ekki yrði hægt að greiða laun til starfsmanna í sumar. Orkuveitan væri tæknilega gjaldþrota.

Reykjavíkurborg lánaði Orkuveitunni 12 milljarða króna með aðgerðum til bjargar Orkuveitunni, sem komu á móti umfangsmiklum niðurskurðarðagerðum hjá Orkuveitunni. Alfreð Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar upplýsti í fréttum okkar í gærkvöldi, að Orkuveitan hefði aðgang að átta milljörðum króna í lánalínu hjá Landsbankanum, sem ekki hefði verið nýttur.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í morgun. Hann sagði lánalínuna hjá Landsbankanum þjóna þeim tilgangi að mæta hugsanlegum sveiflum í gengi. Í áætlun Orkuveitunnar væru margir óvissuþættir og því mikilvægt að hafa aðgang að varasjóði.

Eiríkur segir kjörin á láninu frá borginni mun betri en þau sem bankar bjóða og því hefði lánalínan hjá Landsbankanum ekki verið nýtt. Ekki væri hægt að miða rekstur við það að vera með yfirdráttinn í botni.

Stefán Svavarsson, sem meðal annars var endurskoðandi Landsvirkjunnar til margra ára, varpar þeirri spurningu upp í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag hvort satt og rétt hafi verið skýrt frá stöðu Orkuveitunnar. Hann greinir ársreikning fyrirtækisins sem birtur var nú í vikunni og segir hann sýna betri stöðu en stjórnendur fyrirtækisins hafi haldið fram.

Hann spyr því hvaða hvatir liggi að baki yfirlýsingum stjórnenda um gjaldþrot Orkuveitunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×