Innlent

Hópurinn vildi ríkisborgararétt strax í desember

Erla Hlynsdóttir skrifar
Innanríkisráðuneytið hefur krafið umsækjendurna um viðbótargögn vegna umsóknanna. Lögmaður þeirra segir ráðuneytið þannig leggja stein í götu umsækjendanna
Innanríkisráðuneytið hefur krafið umsækjendurna um viðbótargögn vegna umsóknanna. Lögmaður þeirra segir ráðuneytið þannig leggja stein í götu umsækjendanna
Hópur erlendra ríkisborgara sem sótt hefur um íslenskan ríkisborgararétt stefndi að því að fá Alþingi til að taka umsóknirnar til afgreiðslu í desember 2010, þegar aðrar umsóknir um ríkisborgararétt fengu umfjöllun. Það gekk ekki eftir því innanríkisráðuneytið lagði „alla mögulega steina í götu þess að Alþingi fengi að fjalla um framangreindar umsóknir."

Þetta segir í bréfi sem Nordik lögfræðiþjónusta sendi Róbert Marshall, formanni allsherjarnefndar, þann 7. febrúar. Undir bréfið skrifar lögmaðurinn Einar Páll Tamimi.

Lára Hanna Einarsdóttir birtir þetta bréf í heild sinni á Eyjunni.

Fyrst var fjallað um málið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær þar sem Helgi Seljan var með ítarlega umfjöllun.

Þar kom fram að um er að ræða tíu manna hóp sem hefur mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku og vill fjárfesta á íslandi, meðal annars í orkufyrirtækjum og netþjónabúum.

Gagnrýna kröfur innanríkisráðuneytisins

Í umræddu bréfi eru vinnubrögð innanríkisráðuneytisins harðlega gagnrýnd, eins og Kastljós greindi frá.

Ráðuneytið krafðist þess að umsækjendur létu þau börn sem sótt er um ríkisborgararétt fyrir, og eru á aldrinum 12 til 18 ára, skrifuðu sjálf undir umsóknirnar ásamt foreldrum sínum. Einar Páll segir þetta ekki eiga sér neina lagalega stoð.

Þá vildi ráðuneytið einnig fá umsagnir lögregluyfirvalda á dvalarstað umsækjenda. Lögmaður tímenninganna segir þessa kröfu með ólíkindum og telur að afhending slíkra gagna af hálfu erlendra lögregluyfirvalda væri hreinlega brot á friðhelgi einkalífsins.

Ráðuneytið hefur sömuleiðis óskað eftir sakavottorði umsækjendanna frá heimalandi þeirra. Einar Páll segir í bréfinu að enginn lagagrundvöllur sé fyrir því og bendir á að með umsóknunum fylgi skýrslur um bakgrunn um þessara einstaklinga frá Navigant og Kroll.

Vona að allsherjarnefnd treysti sér í verkið

„Það er von umbjóðenda undirritaðs að allsherjarnefnd treysti sér til að taka afstöðu til umsókna þeirra við fyrsta tækifæri, hvort sem þær yrðu þá afgreiddar sérstaklega eða með öðrum umsóknum," segir í lok bréfsins sem dagsett er fyrir sjö vikum.

Umfjöllun Láru Hönnu um málið má lesa með því að smella hér.

Hér er síðan hægt að horfa á upptökur úr Kastljósþættinum frá í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×