Körfubolti

Njarðvík stöðvaði sigurgöngu Snæfellsstelpna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shayla Fields var góð í dag.
Shayla Fields var góð í dag. Mynd/Anton
Njarðvík stöðvaði fimm leikja sigurgöngu Snæfellsstelpna með 81-78 sigri í leik liðanna í b-deild Iceland Express deild kvenna í Stykkishólmi í dag. Snæfell er enn á toppnum í B-deildinni en nú munar aðeins tveimur stigum á liðunum.

Erlendu leikmennirnir þrír voru allt í öllu hjá Njarðvík og skoruðu saman 66 af 81 stigi liðsins. Shayla Fields var stigahæst með 34 stig, Dita Liepkaine skoraði 16 stig og tók 19 fráköst og Julia Demirer var með 16 stig og 11 fráköst. Ína María Einarsdóttir var stigahæst af íslensku stelpunum með 6 stig.

Monique Martin skoraði 33 stig og tók 15 fráköst fyrir Snæfell og Laura Audere var með 20 stig og 8 fráköst. Berglind Gunnarsdóttir skoraði 14 stig og Hildur Kjartansdóttir var með 11 stig og 6 fráköst.

Snæfell var með þriggja stiga forustu eftir fyrsta leikhlutann, 25-22, en Njarðvík snéri við blaðinu í öðrum leikhluta og var komið með tveggja stiga forystu í hálfleik, 42-40. Njarðvíkurliðið hélt síðan tveggja stiga forskoti, 57-55, fyrir lokaleikhlutann. Fjórði leikhlutinn var síðan æsispennandi en gestirnir voru alltaf skrefinu á undan og tryggðu sér góðan útisigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×