Innlent

Bóndi ósáttur við samning um Dyrhólaey

Þrætur hafa staðið lengi milli ábúenda á svæðinu í kringum Dyrhólaey um lokun eynnar.
Þrætur hafa staðið lengi milli ábúenda á svæðinu í kringum Dyrhólaey um lokun eynnar.
Þorsteinn Gunnarsson, bóndi að Vatnsskarðshólum, segir gerð umsjónarsamnings um Dyrhólaey sem Umhverfisráðuneytið staðfesti í gær, vega að réttindum og stöðu landeigenda. Hann segir samninginn hafa verið gerðan án viðhlítandi samráðs.

Samningurinn, sem leggur almenna umsjón landsins í hendur sveitarfélagsins, var gerður af Umhverfisstofnun og sveitarfélaginu Mýrdalshreppi en samkvæmt Þorsteini voru alvarleg mistök gerð við undirbúning hans þar sem ekki hafi verið haft viðhlítandi samráð við landeigendur og ábúendur.

"Í ljósi þess að sveitarfélagið hefur barist harðar en nokkur fyrir afnámi fuglaverndunar á Dyrhólaey og tekið eindregna afstöðu með þeim ofbeldismönnum sem staðið hafa fyrir ítrekuðum brotum á náttúruverndarlögum í Dyrhólaey í vor sætir furðu að ráðherra skuli ekki doka við meðan þessi lögbrot eru rannsökuð til hlítar." segir Þorsteinn

Þá segir hann það jafnvel vekja enn meiri furðu að ráðherra skuli reiðubúin að afhenda stjórn eynnar í hendur aðila sem heimti meira álag, þó svo friðlandið í Dyrhólaey sé á válista Umhverfisstofnunar sökum of mikils átroðnings.

Þorsteinn segir að ábúendur og landeigendur hyggist nú meta stöðu sína af kostgæfni.


Tengdar fréttir

Umsjónarsamningur um Dyrhólaey samþykktur

Umhverfisráðuneytið hefur staðfest samning um umsjón og rekstur friðlandsins í Dyrhólaey sem gerður var af Umhverfisstofnun og sveitarfélaginu Mýrdalshreppi. Í samningnum er meðal annars kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×