Enski boltinn

Annar í jólum hefur verið góður dagur fyrir Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Dimitar Berbatov fagna marki á öðrum degi jóla í fyrra.
Wayne Rooney og Dimitar Berbatov fagna marki á öðrum degi jóla í fyrra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United hefur oft nýtt sér jólatörnina vel og lærisveinar Sir Alex Ferguson eru aldrei betri en á öðrum degi jóla. Ekkert félag hefur náð betri árangri í ensku úrvalsdeildinni á þessum degi.

Manchester United hefur unnið 14 af 17 leikjum sínum 26. desember og hefur aðeins tapað einum leik á þessum leik síðan að enska úrvalsdeildin var stofnuð. Það kemur í hlut Wigan-manna að mæta á Old Trafford í dag en United hefur unnið alla þrettán deildarleiki liðanna til þessa.

Eins og áður sagði fer jólasteikin oftast vel í strákana hans Ferguson. United-liðið hefur unnið sjö síðustu leiki sína á öðrum degi jóla eða alla leiki síðan að liðið tapaði 1-3 á útivelli á móti Middlesbrough árið 2002.

Manchester United hefur líka verið á góðu skriði í deildinni enda hefur liðið leikið átta leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa og náð í öll þrjú stigin í sjö þeirra. Liðið hefur unnið fjóra síðustu leiki sína með markatölunni 12-1 þar á meðal var 5-0 sigur á Fulham í síðustu viku.

Leikir Manchester United á annan í jólum undanfarin ár:

2010 - Man. United - Sunderland 2-0 (Berbatov og sjálfsmark)

2009 - léku á þriðja í jólum og unnu Hull 3-1

2008 - Stoke City - Man. United 0-1 (Tevez)

2007 - Sunderland - Man. United 0-4 (Saha 2, Rooney, Ronaldo)

2006 - Man. United - Wigan 3-1 (Ronaldo 2, Solskjær)

2005 - Man. United - West Brom 3-0 (Scholes, Ferdinand, Van Nistelrooy)

2004 - Man. United - Bolton 2-0 (Giggs, Scholes)

2003 - Man. United - Everton 3-2 (Butt, Kléberson, Bellion 68)

2002 - Middlesbrough - Man. United 3-1 (Giggs)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×