Innlent

Skotárás: Tveimur sleppt - hinir áfram í gæsluvarðhaldi

Mennirnir skutu göt í hurðina hjá húsráðanda.
Mennirnir skutu göt í hurðina hjá húsráðanda. Mynd/Stöð2
Tveir karlmenn hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 1. febrúar næstkomandi vegna skotárásar í Bústaðarhverfi á aðfangadag. Þeir hafa játað aðild sína að málinu. Lögreglan fór einnig fram á gæsluvarðhald yfir tveimur öðrum, sem hafa játað aðild sína að málinu og setið í gæsluvarðhaldi frá 25. desember, en dómari Héraðsdóms Reykjavíkur féllst ekki á þá kröfu. Þeir eru nú lausir úr haldi lögreglu.

Mennirnir fjórir, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu. Rannsókn málsins er lokið og verður það nú sent embætti ríkissaksóknara til frekari meðferðar.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að tveir karlar komu að húsi í Háaleitishverfi á aðfangadagsmorgun og virtust þeir eiga eitthvað vantalað við húsráðandann. Kom til átaka en mennirnir héldu síðan á brott en sneru svo aftur að húsinu um hádegisbil ásamt tveimur öðrum mönnum og höfðu þá jafnframt haglabyssu meðferðis.

Tveimur skotum var hleypt af haglabyssunni og höfnuðu þau bæði í útidyrahurð en byssan var einnig notuðu til að brjóta rúðu í húsinu. Engan sakaði við þetta en heimilisfólkið hafði forðað sér út bakdyramegin áður en skotið var á húsið. Árásarmennirnir voru handteknir þegar þeir reyndu að komast undan og slasaðist þá einn lögreglumaður, þó ekki alvarlega.

Haglabyssan fannst á vettvangi og var hún tekin í vörslu lögreglu. Tilefni árásarinnar er talið vera uppgjör skulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×