Lífið

Spennandi glíma við menningararfinn

Edda Björg Eyjólfsdóttir t.v. og Marta Nordal t.h. sjást hér með leikkonunni Arndísi Hrönn þegar leikritið Enron var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í haust. Mynd/Anton
Edda Björg Eyjólfsdóttir t.v. og Marta Nordal t.h. sjást hér með leikkonunni Arndísi Hrönn þegar leikritið Enron var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í haust. Mynd/Anton

Fjalla Eyvindur eftir Jóhann Sigurjónsson gengur í endurnýjun lífdaga í Norðurpólnum í dag. Marta Nordal leikstjóri segir það áskorun að setja upp klassískt verk í hráu rými.

„Þetta er langþráður draumur að rætast," segir Marta Nordal leikstjóri um Fjalla Eyvind, sem frumsýnt verður í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi í dag í sviðsetningu leikhópsins Aldrei óstelandi.

„Við Edda Björg Eyjólfsdóttir stofnuðum þennan hóp sérstaklega í kringum þetta verk. Við sátum einhvern tímann yfir kaffibolla og vorum að tala um hvað það væri spennandi að setja upp Fjalla Eyvind. Eftir dálitla umhugsun ákváðum við að taka slaginn og leituðum til fólks sem við vildum vinna með."

Leikritið Fjalla Eyvindur eftir Jóhann Sigurjónsson er eitt af perlum íslenskra bókmennta og var frumsýnt fyrir réttri öld. Það byggir á samnefndri þjóðsögu og segir frá ekkjunni Höllu og vinnumanninum Kára sem fella hugi saman. Kári á sér leyndarmál sem reynist þeim afdrifaríkt. Þegar Halla kemst að sannleikanum verður hún að gera upp við sig hvort hún eigi að flýja til fjalla ásamt ástmanni sínum eða lifa áfram í öryggi án ástar.

„Það sem heillar mig við þetta verk er þessi sterka ástarsaga," segir

Marta. „Jóhann skrifar gífurlega fallegan texta og hefur mikið næmi fyrir sambandi karls og konu. Ég er líka mjög áhugasöm um að setja upp sígild íslensk leikverk. Þau fara ekki oft á fjalirnar en það er mjög spennandi að glíma við menningararfinn." Rýmið í Norðurpólnum er lítið og hrátt og segir Marta það hafa verið krefjandi að setja verkið upp þar. „Það er mikil ögrun fyrir leikarana að flytja svona melódramatískan og ljóðrænan texta í jafnmikilli nálægð við áhorfendur."

Með hlutverk Höllu og Kára fara Edda Björg Eyjólfsdóttir og Guðmundur Ingi Þorvaldsson en með önnur hlutverk fara Valdimar Örn Flygenring og Bjartur Guðmundsson. Nánari upplýsingar um sýningartíma má finna á nordurpollinn.com.

bergsteinn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.