Arnór Atlason, stórskytta með meiru, var í fínu skapi eftir leikinn gegn Brasilíu þegar blaðamaður Vísis hitti á hann.
"Það er ákveðin kúnst að spila á þessum stórmótum þar sem er leikið nánast daglega. Við áttum frábæran dag gegn Ungverjum og vorum ánægðir með okkur. Það var kúnst að koma sér í gírinn fyrir þennan leik. Við þurftum tvö stig og fengum þau," sagði Arnór.
"Það bíður mikið verkefni gegn Japan og við þurfum að undirbúa okkur vel. Ég treysti þjálfarateyminu til þess að undirbúa okkur vel.
"Ég er eiginlega skíthræddur við leikinn gegn Japan. Maður spilar aldrei á móti svona liði. Við spiluðum síðast við svona lið í Peking er við mættum Kóreu og þar lentum við í bullandi vandræðum. Leikurinn á mánudag er ótrúlega mikilvægur."