Innlent

Landsbankinn fagnar því að niðurstaða sé komin í málið

Landsbankinn fagnar því að niðurstaða sé komin í máli Landsbankans hf. gegn þrotabúi Mótormax ehf. og mun bankinn senda nánari upplýsingar til viðskiptavina á næstu dögum. Í tilkynningu segir að mikil vinna sé framundan við endurútreikninga lána sem falla undir dóminn og má búast við að sú vinna taki talsverðan tíma.

Tilkynninguna má sjá hér fyrir neðan:

Fyrr í dag, 9. júní 2011 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli Landsbankans hf. gegn þrotabúi Mótormax ehf. Málið varðaði lán sem Mótormax ehf. hafði tekið hjá (gamla) Landsbanka Íslands hf. Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var að fallast á þá röksemd þrotabúsins að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt.

Landsbankinn fagnar því að niðurstaða skuli fengin í þessu álitamáli.

Í tilkynningu með uppgjöri bankans fyrir árið 2010 kom m.a. fram að sérstök gjaldfærsla er í reikningnum til að mæta áhrifum dómsins. Hann mun því ekki hafa frekari áhrif á fjárhagsstöðu Landsbankans.

Framundan er mikil vinna við endurútreikning lána sem falla undir dóminn og má búast við að sú vinna taki talsverðan tíma. Nánari upplýsingar verða sendar viðskiptavinum á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×