Innlent

Umboðsmaður skammar Lánasjóðinn

Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis.
Stjórn LÍN og mennta-og menningarmálaráðuneytið gáfu námsmönnum ekki fullnægjandi ráðrúm til þess að bregðast við breytingu á framkvæmd útreiknings á hámarki skólagjaldalána, en breytingin átti sér stað í lok júní á síðasta ári. Þetta kemur fram í áliti frá Umboðsmanni Alþingis, Tryggva Gunnarssyni, þar sem hann segir viðeigandi lagasjónarmiða og vandaðra stjórnsýsluhátta ekki hafa verið gætt af hálfu lánastofnunarinnar og ráðuneytisins.

Breytingin sem um ræðir birtist í Stjórnartíðindum stuttu fyrir upphaf haustannar, eða þann 29. júní á síðasta ári, en í henni fólst að í stað þess að miðað væri við upphæðir fyrri skólagjaldalána eins og áður var gert, skyldi miðað við hlutfall af hámarki skólagjalda í fyrra námslandi. Þessi breyting hafði það í för með sér að hámarkslán þeirra nema sem áður höfðu fengið skólagjaldalán á Íslandi en voru á leið í dýrara nám erlendis lækkaði töluvert. Var þessi breyting sem fyrr segir birt stuttu fyrir upphaf haustannar.

Umboðsmaður segir breytingarnar sjálfar innan marka laganna en þar sem þær séu íþyngjandi gagnvart borgurunum hafi stjórnvöldum borið skylda til að kynna breytinguna fyrirfram með skýrum hætti og nægilegum fyrirvara, þannig að þeir aðilar sem málið snerti hefðu raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.

Umboðsmaður beinir þeim almennu tilmælum til LÍN og mennta- og menningamálaráðuneytisins að framvegis verði tekið mið af þessum sjónarmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×