Innlent

Hundrað störf í viðbót hjá Kópavogsbæ - 710 ungmenni fá vinnu

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs
Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs
Um hundrað ungmenni í Kópavogi frá átján ára aldri fá vinnu við skógræktarverkefni í bænum í sumar en það er liður í atvinnuátaki Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarfélags Kópavogs og Vinnumálastofnunar.

Þar með getur bærinn ráðið mun fleiri ungmenni til starfa í sumar en áður var ráðgert. Öll þau ungmenni, sem var synjað um sumarvinnu en sóttu síðan um í atvinnuátakinu, voru ráðin. Alls fá því um 710 ungmenni í Kópavogi vinnu hjá bænum í sumar.

Samningur um verkefnið var undirritaður í Guðmundarlundi í Kópavogi í gær af þeim Guðrúnu Pálsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands og Braga Michaelssyni,formanni Skógræktarfélags Kópavogs.

Ungmennin munu starfa á svæðum Skógræktarfélags Kópavogs, m.a. við gróðursetningu, uppgræðslu, hreinsun og fleira.

Vinnunni er skipt í tvö tímabil. Fyrri hópurinn hóf störf í fyrradag og starfar í fimm vikur en þá tekur síðari hópurinn við sem mun starfa í jafn langan tíma.

Vinnutíminn er frá átta til hálf fjögur á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×