Innlent

Ævintýraheimur að fæðast

10. hola Flötin á tíundu er í forgrunni myndarinnar en nýr golfskáli er hér í mynd. Hér sést í þakið á gamla skálanum sem er hugsaður til framtíðar sem gistirými fyrir kylfinga.
10. hola Flötin á tíundu er í forgrunni myndarinnar en nýr golfskáli er hér í mynd. Hér sést í þakið á gamla skálanum sem er hugsaður til framtíðar sem gistirými fyrir kylfinga.
„Ég get fullyrt að völlurinn okkar verður hafður í hávegum af íslenskum kylfingum. Hér er að verða til ævintýraland fyrir golfáhugafólk," segir Páll Erlingsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur sem fagnar 30 ára afmæli í sumar. Nú hillir undir að teknar verði í notkun fimm nýjar holur og langþráður draumur um fullvaxta átján holu völl verði að veruleika hjá Grindvíkingum.

Að sögn Páls er völlurinn hugsaður fyrir hinn almenna kylfing frekar en afreksfólk, þó að þeir sem hafa náð langt í íþróttinni fái um nóg að hugsa á Húsatóftavelli. „Það sem er skemmtilegt við völlinn er að hann er þrískiptur, og er ólíkur öðrum völlum á Íslandi hvað það varðar. Völlurinn er strandvöllur með gömlu holunum fyrir neðan veg, síðan þær holur sem kalla mætti hefðbundnar og að síðustu nýju holurnar í hrauninu. Hér fá menn að reyna allar hliðar íþróttarinnar í einum golfhring," segir Páll.

Golfklúbbur Grindavíkur var stofnaður árið 1981 af nokkrum áhugamönnum um golf. Einn þeirra, Jóhann Möller, átti sumarhús í Staðarhverfi og hafði útbúið fjórar brautir og holur á sjávarbökkunum. Jóhann hvatti heimamenn eindregið til að koma og spila og til að stofna golfklúbb og færa út kvíarnar. Völlurinn er nú þrettán holu völlur, fimm þeirra eru á bökkunum og átta eru norðan þjóðvegarins og teygja sig inn í hraunið í austurátt.

Árið 2009 var hafist handa við stækkun á vellinum í átján holur eftir teikningum frá Hannesi Þorsteinssyni golfvallahönnuði og yfirstjórn Bjarna Hannessonar vallarstjóra. Í janúar í ár var einnig ráðist í endurbætur á núverandi íbúðarhúsnæði í eigu golfklúbbsins með það að markmiði að taka það í notkun sem framtíðar golfskála árið 2012 um leið og nýi völlurinn verður opnaður.

Klúbbfélagar í GG eru rúmlega 200 og koma ekki aðeins frá Grindavík heldur nágrannasveitarfélögunum einnig. Allir eru velkomnir sem sést á sérstökum kjörum fyrir öryrkja, atvinnulausa, aldraða og námsmenn. Þá má nefna að nýliðagjald kylfinga í GG er lægra en fullt gjald, en það er hugsað þannig að auðvelt sé að komast inn í klúbbinn og kynna sér hvað hann hefur upp á bjóða.

Nafn vallarins dregur nafn sitt af bænum Húsatóftum en tóftir hans liggja á vellinum auk útihúsa og hjáleiga frá býlinu. Hugsun forráðamanna GG er að þessi saga fái að njóta sín og kylfingar geti kynnt sér sögu svæðisins á upplýsingaskiltum sem komið verður fyrir víða um völlinn. Þá munu nýju holurnar jafnframt bera heiti sem dregin verða af örnefnum af aldalangri nýtingu landsins sem völlurinn stendur á. Þá er hugmyndin að gera gamalt sjóhús að ræsishúsi, svo dæmi sé nefnt.

Afmælismót verður haldið 3. september næstkomandi. Páll segir að þá verði gefið út afmælisblað auk annarra uppákoma. „Við ætlum að gera þetta myndarlega núna þegar gamall draumur er loksins að verða að veruleika."svavar@frettabladid.is

5. hola Myndin er tekin af gulum teig en kvennateigurinn er niðri til vinstri. Hægra megin er níunda flöt. Hér sést vel hvernig nýju holurnar sniglast um hraunið en nýrri hluti vallarins er allur í hrauninu.fréttablaðið/gva



Fleiri fréttir

Sjá meira


×