Innlent

Barnarverndarstofa ekki ástæða breytinga

meðferðarheimilið árbót Árbótarmálið svokallaða er ein meginástæða þess að velferðarráðuneytið vill efla eftirlit með meðferðarstofnunum. 
mynd/barnaverndarstofa
meðferðarheimilið árbót Árbótarmálið svokallaða er ein meginástæða þess að velferðarráðuneytið vill efla eftirlit með meðferðarstofnunum. mynd/barnaverndarstofa
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu (BVS), segir umræðu um hert eftirlit með meðferðarstofnunum ekki tengjast BVS beint. Innra eftirlit BVS hafi aldrei verið gagnrýnt, heldur bendir hann á að Árbótarmálið og Götusmiðjan séu dæmi um að kerfið skili góðum árangri. „Við erum mjög stolt af því að hafa gripið inn í starfsemi þeirra," segir hann.

Engu að síður telur Bragi eðlilegt að flytja ytra eftirlitið annað, en BVS ræður nú óháðan aðila til þess að heimsækja heimilin tvisvar á ári og skila áliti. „Barnaverndarstofa hefur aldrei beðið um að hafa eftirlit með þessum stofnunum, heldur var þetta lagt á hennar herðar með lögum. Heppilegra væri að eftirlitið heyri hvorki undir Barnaverndarstofu né velferðarráðuneytið, sem ber endanlega ábyrgð á málaflokknum," segir Bragi.

Til stendur að efla ytra eftirlit með áfangaheimilum og meðferðarstofnunum og fá til þess óháðan aðila sem á ekki aðild að gerð þjónustusamninga. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í Fréttablaðinu á mánudag að ástæða breytinganna væri meðal annars mál tengd BVS og nefnir þar Götusmiðjuna og Árbót. Í blaðinu var ranghermt að Byrgið heyrði undir starfsemi stofunnar og er það leiðrétt. Byrgismálið er engu að síður ein af ástæðum ráðuneytisins til þess að gera þessar breytingar, sem og gagnrýni Ríkisendurskoðunar á að sami aðili geri samningana og hafi eftirlit með þeim.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×