Innlent

Þorskkvóti aukinn merkjanlega vegna stækkandi stofns

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, kynnti tillögur stofnunarinnar á blaðamannafundi í gær.Fréttablaðið/Pjetur
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, kynnti tillögur stofnunarinnar á blaðamannafundi í gær.Fréttablaðið/Pjetur
Hafrannsóknastofnunin leggur til að þorskkvóti verði aukinn úr 160 þúsund tonnum í 177 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Stofnunin kynnti í gær tillögur sínar um hámarksafla um þrjátíu fiskistofna á næsta fiskveiðiári.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, segir aðgerðir undanfarinna ára, í þá átt að fjölga í þorskstofninum og nýta hann betur, hafa skilað árangri. Stofninn fari stækkandi og fiskarnir séu þyngri. Þá segir hann allar líkur á því að hægt verði að veiða allt að 250 þúsund tonn af þorski árið 2016 verði 20 prósenta aflareglunni, sem Hafró mælir með, fylgt næstu fimm árin.

Aflareglan felur í sér að leyfa skuli veiðar á 20 prósentum af viðmiðunarstofni en raunar valda ýmsar viðbótarheimildir og tilfærslur milli ára því að veiðar geta vikið frá viðmiðinu. Þorskaflinn á nýafstöðnu fiskveiðiári varð þannig á endanum 169 þúsund tonn í stað 160 þúsund tonna.

Hafró leggur til að aflamark ýsu verði 37 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári samanborið við 45 þúsund tonn á yfirstandandi ári. Ýsustofninn hefur minnkað mikið á undanförnum árum sem rekja má til minni áhrifa risaárgangsins frá 2003. Jóhann segir miklar líkur á því að stofninn fari niður fyrir sögulegt lágmark á næstu árum þegar árgangar síðustu ára, sem hafa verið litlir, koma inn í hrygningarstofninn. Þá leggur stofnunin til að tekin verði upp aflaregla fyrir ýsu rétt eins og gert hefur verið í þorski.

Þá er útlit fyrir góða loðnuvertíð en mælingar Hafró benda til vertíðar upp á um 700 þúsund tonn en aflamark á yfirstandandi ári var 390 þúsund tonn. Hafró gefur hins vegar ekki út endanlegt aflamark í loðnu fyrr en í haust þegar frekari mælingar liggja fyrir.

Í öðrum helstu nytjastofnum leggur stofnunin til að leyfður ufsaafli verði 45 þúsund tonn en í fyrra taldi stofnunin óhætt að veiða 40 þúsund tonn. Þá er gerð tillaga um 40 þúsund tonna hámarksafla á gullkarfa samanborið við 30 þúsund tonn í fyrra.

Tillögur Hafró um aflamark annarra stofna eru flestar í takti við tillögur ársins í fyrra. Þó er verulega dregið úr aflamarki íslenskrar sumargotssíldar en mikil óvissa er um þróun stofnsins vegna sýkingar sem hefur hrjáð hann.

„Auðvitað fagna ég því að verið sé að bæta við í þorskinum en ég harma það aftur á móti að við séum með svo arfavitlausa aflareglu að það skuli ekki vera hægt að bregðast við góðu ástandi með meiri aukningu. Okkur finnst þetta alltof lág aflaregla,“ segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, og bætir við að tillögur Hafró í karfa og loðnu séu einnig fagnaðarefni. Annað hafi ekki komið á óvart.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir mjög jákvætt að þorskstofninn hafi vaxið mikið á undanförnum árum sem gefi tilefni til aukinnar veiði. „Á sama tíma er hins vegar algjörlega óþolandi að núna þegar uppbyggingin er að takast eigi að taka stóran hluta hennar af þeim sem færðu fórnir til að byggja stofninn upp,“ segir Friðrik með vísan til þess ef fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða ganga eftir.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×