Innlent

Deilt á bæjarfulltrúa í stríði um götuskilti

Aðgerðir á Akureyri Bjarni Thorarensen frá Akureyrarbæ kom til að fjarlægja skilti Fab Travel þegar skemmtiferðaskipið MSC Poesia kom til bæjarins. Sigtryggur Gunnarsson frá Fab Travel fylgdist með. Bjarni segir lausaskilti utan lóðar bönnuð. Skemmtiferðaskiptið Grand Princess kemur til Akureyrar í dag.Mynd/Fab Travel
Aðgerðir á Akureyri Bjarni Thorarensen frá Akureyrarbæ kom til að fjarlægja skilti Fab Travel þegar skemmtiferðaskipið MSC Poesia kom til bæjarins. Sigtryggur Gunnarsson frá Fab Travel fylgdist með. Bjarni segir lausaskilti utan lóðar bönnuð. Skemmtiferðaskiptið Grand Princess kemur til Akureyrar í dag.Mynd/Fab Travel
Skiltið umdeilda Í bakgrunni er hið reisulega hús Fab Travel.
„Það er óþolandi að bæjarfulltrúi geti að sínum geðþótta kallað út starfsmenn bæjarins á laugardegi til að rífa niður skilti frá samkeppnisaðilum,“ segir Tryggvi Sveinbjörnsson, eigandi FAB Travel á Akureyri.

Þrjú kynningarskilti sem sett voru upp fyrir FAB Travel laugardaginn 28. maí voru í tvígang rifin niður. Þann dag kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Akureyrar. Tryggvi hefur rekið rútufyrirtæki en er að víkka út starfsemina í alhliða ferðaþjónustu. Á Strandgötu 49 verður meðal annars veitingasala og verslun með minjagripi og fatnað. Skammt frá er Ferðamannaverslunin Víkingur sem er í eigu Sigurðar Guðmundssonar, bæjarfulltrúa Bæjarlistans.

„Það komu einhverjir stráklingar í víkingabúningum og hentu skiltunum niður. Þeir sögðu að eigandi Víkings hefði sagt þeim að gera þetta,“ segir Tryggvi sem kveður skiltin þrjú hafa verið sett strax upp aftur.

„Þá kom maður í mótorhjólagalla sem myndaði skiltin og felldi þau svo niður. Hann sagðist vera frá Akureyrabæ. Það væri ekki leyfilegt að vera með þessi skilti. Um klukkustund síðar mætti hann aftur og var þá með hótunarbréf frá bænum þar sem sagði að ef þetta yrði gert aftur yrði beitt allt að milljón króna dagsektum,“ segir Tryggvi.

Að sögn Tryggva mætti bæjarstarfsmaðurinn á staðinn þennan laugardag að undirlagi Sigurðar Guðmundssonar. „Mér finnst ámælisvert að bæjarfulltrúi geti ráðskast með starfsmenn bæjarins og kallað út lið til að argast út í þessi skilti. Það eru viðlíka skilti sem hafa engin leyfi úti um allan bæ.“

Í kjölfar þessa atviks sótti Tryggvi um leyfi fyrir skiltum og fékk leyfið með tilteknum skilmálum. „Við megum setja upp skilti til að kynna ferðir sem við bjóðum en ekki þá starfsemi sem fram fer í húsinu sjálfu. Þetta er nánast eins og einelti á þetta nýja fyrirtæki og dæmin eru fleiri.“

Sigurður Guðmundsson staðfestir að hann hafi lagt niður skiltin frá Tryggva og einnig kvartað til Akureyrarbæjar. „Ég benti þeim á að kynna sér reglugerð bæjarins um skilti. Mér þykir náttúrulega ekki eðlilegt þegar aðili í sambærilegum rekstri er með ólöglega uppsett skilti 150 metra frá sínu húsi en aðeins þrjá metra frá minni lóð,“ segir Sigurður sem hafnar því að hafa beitt áhrifum sínum sem bæjarfulltrúi á óeðlilegan hátt. „Það gerði ég að sjálfsögðu ekki. Það er hverjum manni frjálst að hringja í hvern þann sem honum sýnist.“

Skemmtiferðaskipið Grand Princess kemur til Akureyrar í dag. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×