Innlent

Áhrifin líklega mikil á smádýr

Gróður mun víðast hvar ná sér á strik á láglendi þrátt fyrir verulegt öskufall vegna Grímsvatnagossins. Það mun þó fara eftir tíðarfari á komandi vikum, að mati Erlings Ólafssonar skordýrafræðings og Sigurðar H. Magnússonar gróðurvistfræðings, sem fóru í skoðunarferð fyrir Náttúrufræðistofnun um öskusvæðið í lok maí. Þeir könnuðu öskufall eftir gosið og gróður, smádýralíf og fuglalíf.

Í mosagrónum hraunum mun lágvaxinn gróður kafna undir þykkustu öskunni, en landnám mun hefjast að nýju, einkum munu grös, víðir og lyng aukast. Gróðurskilyrði eru víðast góð og því þarf þetta ekki að þýða miklar breytingar til langframa. Í graslendi og votlendi mun grösum og hávöxnum plöntum fjölga, og uppskera mun jafnvel aukast vegna næringar í öskunni og hærri jarðvegshita. Illa gróið flatlendi er viðkvæmast og æskilegt að styrkja gróður með áburðargjöf að mati Náttúrufræðistofnunar.

Neikvæð áhrif öskunnar eru meiri á smádýr. Mest getur askan komið niður á jarðvegsdýrum og smádýrum sem byggja afkomu sína á víði og birkilaufum. Samfelld aska sem liggur þétt er líkleg til að minnka aðgengi að súrefni og breyta efnasamsetningu. Öskufall á víðirekla mun líka hafa áhrif, þar sem reklarnir eru mikilvægt matarbúr fyrir smádýr sem eru á ferli á vorin. Flugur eru dæmi um þetta, til dæmis humlur og sveifflugur.

Erling og Sigurður urðu lítið varir við varp eða söng fugla. Þó þarf að hafa í huga að kalt var á meðan þeir voru á svæðinu og það gæti hafa haft áhrif á það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×