Innlent

Stefna VG harðlega gagnrýnd

gagnrýninn Bjarni Benediktsson sagði utanríkisstefnu Vinstri grænna einkennast af hentisemi.fréttablaðið/anton
gagnrýninn Bjarni Benediktsson sagði utanríkisstefnu Vinstri grænna einkennast af hentisemi.fréttablaðið/anton
Stefna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í utanríkismálum var harðlega gagnrýnd á Alþingi í gær í utandagskrárumræðu um stuðning Íslands við aðgerðir Nató í Líbíu. Athygli vakti að hvorki Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, né Ögmundur Jónasson, sem oft hefur tjáð sig um álíka efni, sáu ástæðu til að taka þátt í umræðunni.

Bjarni Benediktsson var málshefjandi og sakaði hann Vinstri græn um hentisemi í utanríkismálum. Flokkurinn hefði greitt fyrir stuðningi við aðildarumsókn að Evrópusambandinu, en styddi síðan aðgerðir Nató í Líbíu, með þögn sinni og aðgerðaleysi innan ríkisstjórnar.

Fleiri stjórnarandstæðingar hjuggu í sama knérunn og sögðu málflutning flokksins lítt trúverðugan. Hann hefði getað komið í veg fyrir stuðninginn hefði verið vilji til þess, ekki síst vegna þess að ákvarðanir Nató um slík efni þyrftu að vera einróma.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði vinstri græn hafa gert grein fyrir andstöðu sinni við aðgerðirnar, bæði í ríkisstjórn og á Alþingi. Hann sagði ákvörðun sína um stuðning hafa byggt á þeirri staðreynd að þingmeirihluti væri fyrir aðgerðunum.

Árni Þór Sigurðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir voru einu fulltrúar vinstri grænna sem tóku til máls og sögðu stefnu flokksins skýra, hann væri friðarins flokkur.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×