Innlent

Lee Buchheit fékk 86 milljónir frá íslenska ríkinu

Boði Logason skrifar
Lee Bucheit fór fyrir samninganefndinni um Icesave III.
Lee Bucheit fór fyrir samninganefndinni um Icesave III.
Lögfræðistofa Lee Buchheit fékk rúmlega 86 milljónir króna greiddar fyrir störf í samninganefnd vegna Icesave III, sem kosið var um helgina og þjóðin hafnaði.

Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag en Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, spurði Steingrím um sundurliðun á kostnaði ríkisins vegna samningsins.

Heildarkostnaður ríkisins vegna samningsins nam 369,2 milljónum króna samkvæmt fjárhagsbókhaldi ríkisins í lok febrúar á þessu ári. Þar af voru greiðslur til lögfræðistofa fulltrúa í samninganefndinni 132,5 milljónir króna. Erlend aðkeypt sérfræðiaðstoð nam 233,6 milljónum króna og þá var innlend þjónusta, svo sem kynningarmál, prentkostnaður, þýðingar, ferðakostnaður og fleira, 3,1 milljón króna.

Lögfræðistofa Lárusar Blöndal, sem sat í samninganefndinni, fékk 18,1 milljón króna og lögfræðistofa Jóhannesar Karls Sveinssonar fékk 11,2 milljónir króna. Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, sem sátu einnig í samninganefndinni, fengu ekki greitt fyrir störf sín í nefndinni en þeir eru ráðuneytisstjórar í ráðuneytum.

Kostnaður ríkisins vegna samningsins á fyrri stigum nam 77,5 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×