Innlent

Ekki forsenda til að lækka lánshæfismat

Steingrímur j. Sigfússon.
Steingrímur j. Sigfússon.
Ekki eru efnislegar forsendur til að lánshæfismat ríkissjóðs verði lækkað þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave. Þetta er mat Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir að koma verði í ljós hvað alþjóðlegir lánveitendur aðhafist í kjölfar niðurstöðunnar. Áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA verði svarað sem fyrst og málstað Íslands haldið kröftuglega á lofti.

„Þetta hefur sinn gang og nú er verkefnið að verja hagsmuni Íslands eins vel og mögulegt er og reyna að fá dómsniðurstöðu flýtt eins og kostur er. Öllu máli skiptir að við verjumst sem best og nýtum þau sóknarfæri sem eru til staðar,“ segir Árni Páll.

Svarbréfið er í vinnslu og næstu skref verða ákveðin í samráði við forseta Eftirlitsstofnunar EFTA.

Árni Páll telur ekki tímabært að segja til um líkur þess að Bretar og Hollendingar höfði skaðabótamál gegn íslenska ríkinu. „Við skulum bíða og sjá, nú er að halda fram okkar rökum fyrir því að okkur beri ekki skylda til að greiða og ég tel okkur hafa ágæt rök í því máli.“

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar kalli á visst endurmat á forsendum ríkisfjármála- og efnahagsmála. Árni Páll segir að í því felist að metið verði hvort endurskoða þurfi áætlanir ríkisstjórnarinnar. „Við teljum að þetta eigi ekki að hafa neikvæð áhrif á forsendurnar því málið snýst um afmarkaðan ágreining um greiðsluskyldu en ekki annað.“

Á blaðamannafundi í gærmorgun lagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ríka áherslu á að niðurstaðan feli ekki í sér að Ísland muni lenda í erfiðleikum með afborganir af erlendum skuldum. Gjaldeyrisforðinn nægi fyrir afborgunum á næstu árum.

Hann lagði jafnframt áherslu á að væntingar standi til þess að útgreiðslur úr búi Landsbankans geti hafist í sumar. Þá fá Bretar og Hollendingar greitt upp í kröfur sínar.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að mikilvægt sé að eyða, eins og kostur sé, þeirri óvissu sem niðurstaðan óhjákvæmilega skapi. Ríkisstjórnin muni eiga viðræður um stöðuna við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, samtök launafólks og atvinnurekenda vegna kjaraviðræðna og vinna náið með Seðlabankanum. Einnig verði viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og samstarfsþjóðirnar, hin Norðurlöndin og Pólland, til að freista þess að tryggja hnökralausa framvindu efnahagsáætlunarinnar.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×