Innlent

Skammtímasamningar líklegir

Forseti ASÍ telur að óvissan sem hlýst af höfnun Icesave-samnings sé enn til staðar og skammtímasamningar séu líklegri.Fréttablaðið/Pjetur
Forseti ASÍ telur að óvissan sem hlýst af höfnun Icesave-samnings sé enn til staðar og skammtímasamningar séu líklegri.Fréttablaðið/Pjetur
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að í ljósi úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé líklegra að nú verði gerðir kjarasamningar til skemmri tíma í stað þriggja ára eins og viðræður aðila vinnumarkaðarins hafi gert ráð fyrir fram að þessu.

„Forsendur kjarasamninga til lengri tíma hafa gert ráð fyrir að gangverk landsins færi á fullt og hagvöxtur glæddist. Markmiðið var að nota kjarasamninga til þess að draga úr óvissu og óvissan vinnur gegn fjárfestingum. Þessi niðurstaða þjóðarinnar, sem ber að virða, leiðir til þess að þetta mál verður í óvissu næstu tvö, þrjú árin.“

Gylfi segir að fyrir liggi að áframhaldandi uppbygging hér á landi sé háð aðgangi að fjármálamörkuðum.

Gylfi sagðist munu funda með Samtökum atvinnulífsins í dag. „Skylda verkalýðshreyfingarinnar er að tryggja félagsmönnum sínum launahækkun í ár og nú munum við fara í að tryggja það og þá með gerð skammtímasamnings.“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagðist ekki vilja tjá sig ítarlega um niðurstöðuna en framhaldið myndi skýrast í vikunni. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×