Ungar leikkonur herja nú á rauðu dreglana í Hollywood og vekja verðskuldaða athygli fyrir fágaðan fatastíl. Tískuritin skiptast á að hampa þeim Elizabeth Olsen, Elle Fanning og Chloë Moretz, sem einnig fá góða dóma fyrir frammistöðu sína á hvíta tjaldinu.
Þrátt fyrir ungan aldur, en Elle Fanning er einungis 13 ára gömul, eru þær í náðinni hjá mörgum af fremstu hönnuðum heims sem keppast um að fá að klæða þær við hin ýmsu tilefni. Það er greinilegt að nýjar stjörnur eru að fæðast í Hollywood.
