Fótbolti

Napoli vann Inter 3-0 í Mílanó og fór á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Napoli fagna í kvöld.
Leikmenn Napoli fagna í kvöld. Mynd/AP
Napoli komst í efsta sæti ítölsku deildarinnar eftir 3-0 sigur á Inter Milan á San Siro í Mílanó í kvöld. Napoli-liðið nýtti sér vel umdeildan brottrekstur á Inter-manninum Joel Obi sem fékk sitt annað gula spjald á 41. mínútu leiksins.

Bæði gulu spjöldin á Joel Obi voru vafasöm en það seinna fékk hann fyrir að brjóta á Christian Maggio innan teigs þótt að brotið hafi í raun verið utan teigs. Hugo Armando Campagnaro skoraði úr frákastinu eftir að Julio Cesar varði vítið frá Marek Hamsik en Campagnaro fór greinilega alltof snemma af stað inn í teiginn.

Claudio Ranieri, þjálfari Inter, var brjálaður út í dómarann í hálfleik og hætti ekki fyrr en hann var rekinn upp í stúku.

Christian Maggio og Marek Hamsík bættu við mörkum í seinni hálfleik og Napoli vann sinn fyrsta sigur á Inter í Mílanóborg síðan 1994.

Napoli hefur nú tíu stig, tveimur meira en næstu lið þótt að þar á meðal séru Juventus og Udinese sem spila bæði á morgun. Roma er líka með átta stig eftir 3-1 sigur á Atalanta fyrr í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×