Innlent

Fyrirkomulag tollkvóta með búvörur andstætt stjórnarskrá

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ákvæði tollalaga sem heimila landbúnaðarráðherra að ákveða tollkvóta á innfluttar landbúnaðarvörur fullnægja ekki kröfum stjórnarskrárinnar að mati umboðsmanns Alþingis. Ákvæði laganna hafa því samkvæmt þessu verið andstæð stjórnarskrá frá árinu 2005.

Hinn 24. júní á síðasta ári leituðu Samtök verslunar og þjónustu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að í þremur reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum væri notast við verðtolla fremur en magntolla. Samtökin drógu í efa að það fyrirkomulag stæðist lög og töldu að við ákvörðun þessa fyrirkomulags hefði ekki verið gætt lögmætra hagsmuna innflytjenda. Umboðsmaður taldi nauðsynlegt að athuga fyrst hvort lagagrundvöllurinn sem reglugerðirnar styddust við væri fullnægjandi.

Sú athugun leiddi til þeirrar niðurstöðu umboðsmanns að þær heimildir sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefði um álagningu tolla samkvæmt tollalögum frá 2005 væru ekki í samræmi við kröfur um skattlagningarheimildir sem leiða af ákvæðum stjórnarskrár.

Orðrétt segir umboðsmaður: „Eins og framangreint ákvæði 3. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005 er úr garði gert er ljóst að löggjafinn hefur ákveðið að veita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verulegt svigrúm til að ákvarða í reglugerð toll á vörur sem eru fluttar inn."

Þá segir í niðurstöðu umboðsmanns að hann fái ekki annað séð en að löggjafinn hafi með reglugerðarheimild í tollalögum gengið lengra við framsal á valdi en samrýmist ákvæðum stjórnarskrár. Ákvæðið í tollalögum gangi lengra en svo að það samrýmist kröfum um skýrleika sem leiddar verða af ákvæðum 40. gr. stjórnarskrár um að skýra lagaheimild þurfi fyrir sköttum og ákvæði 77. gr. um að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Umboðsmaður fjallaði því ekki efnislega um kvörtun samtakanna, en samkvæmt þessu hefur lagagrundvöllur ákvörðunar tollkvóta verið andstæður stjórnarskránni frá árinu 2005. Álit umboðsmanns má lesa í heild sinni hér.thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×