Erlent

Forsetinn framdi sjálfsvíg

Krufning á líki Allende sýnir að hann framdi sjálfsvíg.
Krufning á líki Allende sýnir að hann framdi sjálfsvíg. Mynd/AP
Krufning á líki Salvadors Allende, sem var forseti Síle fram til ársins 1973, sýnir að hann framdi sjálfsvíg. Rannsóknin leiddi í ljós að hann skaut sig í höfuðið með AK-47 riffli sem Castro Kúbuforseti hafði gefið honum tveimur árum fyrr.

Uppi hafa verið kenningar um að hermenn hafi myrt forsetann þegar herinn rændi völdum í landinu undir stjórn Augusto Pinochet árið 1973. Allende hafði sagt að hann myndi ekki gefast upp fyrir uppreisnarmönnum. Þegar ráðist var á höll hans skipaði hann bandamönnum sínum að gefast upp, en sjálfur var hann eftir í höllinni. Hvernig dauða hans bar að hefur alltaf verið óljóst. Herinn hefur þó alltaf haldið því fram að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Það gerði einn lækna hans einnig, og sagðist hafa séð þegar sjálfsvígið átti sér stað. Nú hefur það verið staðfest og segjast rannsakendur allir vera sannfærðir um réttmæti niðurstöðunnar.

Líkamsleifar Allendes voru grafnar upp í maí síðastliðnum vegna rannsóknar á dauða hans og hundraða annarra sem létust eða hurfu á meðan Pinochet var við völd.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×