Enski boltinn

Dalglish: Gerrard lítur mjög vel út

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, segir að fyrirliðinn Steven Gerrard sé heill heilsu á ný og klár í slaginn. Hann muni þó fara rólega af stað fyrst um sinn.

Gerrard sneri aftur eftir meiðsli í 1-1 jafnteflinu gegn Blackburn í fyrradag en hann missti einnig af upphafi tímabilsins vegna meiðsla.

„Steven var búinn að ná sér að fullu áður en hann meiddist á ný. Þetta tvennt tengdist þó ekki og hann lítur betur út í dag en hann gerði síðast þegar hann kom til baka eftir meiðsli," sagði Dalglish.

„Við ætlum þó ekki að vera óábyrgir og passa vel upp á hann. Við vitum að hann er klár í slaginn en hann þarf bara tíma til að koma sér aftur af stað. En hann lítur mjög vel út þessa stundina."

Hann segir að það skorti ekki leiðtogana í Liverpool þó svo að Gerrard hafi verið frá. „Það eru þrír fyrirliðar í búningsklefanum - Stevie, Jamie Carragher og Pepe Reina," sagði Dalglish.

„Það skiptir máli að geta notað bestu leikmenn liðsins. Við þurfum bara smá heppni fyrir framan mark andstæðingsins og myndi það styrkja lið okkar mikið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×