Innlent

Óttast átök við verkfallsverði

Samningarnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga vill forðast átök við verkfallsverði Félags leikskólakennara og beinir þeim tilmælum til sveitarfélaga að starfsemi leikskólanna verði skipulögð á þann hátt að komast megi hjá slíkum átökum. Nefndin hyggst vísa málinu til félagsdóms, verði verkfallið að veruleika.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samninganefndinni, en skoðanir nefndarinnar á því hvernig standa skuli að framkvæmd verkfallsins samrýmast ekki skoðunum Félags leikskólakennara, og sitja báðir aðilar fast við sinn keip.

Í yfirlýsingunni segir að Félag leikskólakennara hafi lýst því yfir að þau komi til með að „beita öllum tiltækum ráðum til að knýja á um að farið verði eftir þeim einhliða viðmiðuarreglum sem stjórn félagsins hefur sent til stjórnenda leikskóla, komi til verkfalls."

Verkfall leikskólakennara hefur verið boðað þann 22. ágúst næstkomandi, en viðræður samninganefnda Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags leikskólakennara hafa ekki skilað árangri. Sveitarfélögin vilja manna stöður deildarstjóra með starfsmönnum utan Félags leikskólakennara ef til verkfalls kemur, en lögmaður félagsins telur að slík tilhögun mála myndi teljast verkfallsbrot.

Eftir fund um framkvæmd verkfallsins sem haldinn var á hádegi í dag sagði Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, að aðilar væru „Sammála um að vera ósammála".

„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur mótmælt [...] því að stéttarfélag gefi stjórnendum sveitarfélaga bein fyrirmæli." segir í yfirlýsingunni, og er það að lokum ítrekað að samninganefndin hyggist vísa málinu til félagsdóms, ef til verkfalls kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×