Enski boltinn

Frost í samskiptum Bellamy og Mancini

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bellamy í leik með Wales.
Bellamy í leik með Wales.
Framherjinn Craig Bellamy hefur viðurkennt að hafa lent í rifrildi við Roberto Mancini aðeins nokkrum dögum eftir að Ítalinn tók við stjórnartaumunum hjá Man. City. Þeir hafa ekki talað saman síðan.

Bellamy var lánaður til Cardiff síðasta vetur en hann var fastamaður í liði City á meðan Mark Hughes stýrði liðinu. Hughes var síðan rekinn og Mancini ráðinn.

Er Mancini kom til félagsins krafðist hann þess að Bellamy myndi æfa aukalega.  Bellamy tók því illa og allt fór til fjandans. Hann er nú kominn aftur til City þar sem hann á enga framtíð.

"Eins og staðan er verð ég þarna í heilt ár og geri eflaust lítið ef Mancini verður þarna áfram. Það var erfitt að missa Hughes. Það var eins og að missa fjölskyldumeðlim. Ég átti hreinlega erfitt með að borða í nokkra daga," sagði Bellamy.

"Það breyttist allt með komu Mancini. Við æfðum lengur en það var enginn að taka almennilega á því. Hann var líka með öll svörin og virtist þekkja hnéð á mér betur en ég. Þegar ég sagðist vera slæmur í hnénu sagði hann að það væri ekkert að mér.

"Hann vildi að ég æfði aukalega en ég sagðist vera búinn með minn vinnutíma. Þá varð fjandinn laus. Hann sagði að ef ég gæti ekki æft aukalega gæti ég bara komið hér heim og sleppt því að koma aftur. Ég sagði að það væri ekkert mál. Við höfum ekki talað saman síðan."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×