Erlent

Stefnt að sjálfbærum veiðum

Kvótaframsal að íslenskri fyrirmynd er í drögum nýju stefnunnar.
Kvótaframsal að íslenskri fyrirmynd er í drögum nýju stefnunnar. nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst leggja til að fiskveiðikvótar verði fyrir fram ákveðnir til nokkurra ára í senn og jafnframt verði framsal kvóta leyfilegt, líkt og tíðkast hefur hér á landi.

Þetta er meðal þeirra hugmynda, sem að sögn Reuters fréttastofunnar er að finna í drögum að nýrri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Tillögurnar verða kynntar og afgreiddar á fundi framkvæmdastjórnarinnar á miðvikudag í næstu viku.

Markmið breytinganna er að koma í veg fyrir ofveiði, sem hefur verið mikil í sjávarútvegi Evrópusambandsríkjanna. Stefnt er að því að útrýma ofveiði á næstu fjórum árum. Eftir það verði fiskveiðarnar sjálfbærar.

Meðal annars hafa verið viðraðar þær hugmyndir að útgerðarmenn þurfi að sýna fram á ábyrgð sína áður en þeir fá aðgang að miðunum.

Eftir að framkvæmdastjórnin hefur sent frá sér endanlega útgáfu tillagnanna fara þær til umfjöllunar bæði hjá Evrópuþinginu og ráðherraráði Evrópusambandsins.

Endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfis Evrópusambandsins hefur nú staðið yfir í nokkur ár og hafa meðal annars Íslendingar verið hafðir með í ráðum.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×