Viðskipti erlent

Hlutir í Goldman Sachs hröpuðu á Wall Street

Markaðir í Bandaríkjunum tóku því illa undir lokin í gærkvöldi þegar ljóst varð að Lloyd Blankfein forstjóri Goldman Sachs hefði ráðið sér stjörnulögfræðing. Hlutabréf í bankanum hröpuðu um 5% á síðustu mínútunum í kauphöllinni á Wall Street og síðan um 1,5% í viðbót í utanmarkaðsviðskiptum eftir lokunina.

Ástæða þess að Blankfein réð lögfræðinginn sér til halds og trausts er að bandaríska dómsmálaráðuneytið er nú að rannsaka ýmsa viðskiptahætti Goldman Sachs og þá einkum í tengslum við svokölluð undirmálslán vestan hafs.

Goldman Sachs hefur áður greitt 500 milljóna dollara, eða rúmlega 56 milljarða kr., í sekt til fjármálaeftirlitsins fyrir að hafa blekkt viðskiptavini sína í viðskiptum með undirmálslán.

Lögfræðingurinn sem hér um ræðir er Reid Weingarten og er einn sá þekktasti í Bandaríkjunum þegar kemur að svokölluðum hvítflippaglæpum. Meðal viðskiptavina hans hafa verið Bernard Ebbers fyrrum forstjóri WorldCom og Richard Cause fyrrum endurskoðandi Enron.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×