Elsti Íslendingurinn, Torfhildur Torfadóttir, lést á Ísafirði í gær. Torfhildur varð 107 ára gömul 24. maí síðastliðinn.
Hún var fædd í Asparvík í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu 24. maí árið 1904, yngst ellefusystkina, og ólst upp í Selárdal í Steingrímsfirði. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.
Torfhildur var í vinnumennsku í Reykhólasveit í Austur-Barðastrandarsýslu eftir fermingu. Hún flutti síðan til Ísafjarðar og giftist Einari Jóelssyni sjómanni. Einar lést árið 1981. Þau eignuðust fimm börn og eru þrjú á lífi, Torfi 61 árs, Sigurbjörn 69 ára og Kristín 78 ára.
Langlífi virðist vera í ætt Torfhildar, því bróðir hennar, Ásgeir, varð hundrað ára, Eymundur, annar bróðir, 96 ára og Guðbjörg systir hennar 91 árs. Ekki er vitað um neina íbúa Vestfjarða sem náð hafa hærri aldri en Torfhildur, samkvæmt vefsíðunni Langlífi.net.
Torfhildur dvaldist á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði á síðustu árum.
Guðríður Guðbrandsdóttir, sem varð 105 ára í maí, er nú elsti Íslendingurinn.- sv

