Innlent

Látinn eftir hnífstungu á Monte Carlo

Monte Carlo við Laugaveg
Monte Carlo við Laugaveg
Karlmaður á fimmtugsaldri, sem hlaut lífhættulega áverka eftir árás á Monte Carlo fyrir hálfum mánuði síðan, lést af þeirra völdum fyrr í vikunni. Karlmaður um fertugt var í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 26. ágúst af kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn uni þeirri niðurstöðu.

Hann veitti manninum lífshættulega áverka á hálsi, með hnífi, á veitingastaðnum Monte Carlo við Laugaveg á miðnætti 15. júní síðastliðinn. Skömmu áður var tilkynnt um að óður maður gengi þar berserksgang og ógnaði þar manni með hnífi. Margir lögreglumenn og þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang, en þá hafði árásarmaðurinn þegar stungið manninn í hálsinn með þeim afleiðingum að slagæð til höfuðsins skarst í sundur. Þolandanum hafði þá þegar blætt mikið og var aðkoman skelfileg, að sögn lögreglu.

Árásarmaðurinn er erlendur ríkisborgari en hinn látni er Íslendingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×