Innlent

Fiskvinnslufyrirtæki grunuð um að brjóta gegn rétti ungmenna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Störf og starfsskilyrði í fiskvinnslufyrirtækjum verða skoðuð á næstunni. Mynd/ GVA.
Störf og starfsskilyrði í fiskvinnslufyrirtækjum verða skoðuð á næstunni. Mynd/ GVA.
Vinnueftirlitið ætlar að ráðast í könnun á störfum og starfsskilyrðum ungmenna í fiskvinnslufyrirtækjum á næstunni. Fyrirtækin megi búast við kæru ef í ljós kemur að þau hafi brotið reglugerð um vinnu barna og unglinga er að ræða. Vinnueftirlitið hefur sent út dreifibréf til fiskvinnslufyrirtækja um land allt vegna þessa.

Vinnueftirlitið segir að nýlega hafi orðið nokkur vinnuslys í fiskvinnslufyrirtækjum þar sem ungmenni yngri en 18 ára og í einu tilviki barn undir 15 ára hafi slasast vegna vinnu við vélar og tæki. Vinnueftirlitinu hafa einnig borist ábendingar vegna meintra brota á ákvæðum reglugerðar um vinnu barna og unglinga vegna aldurs ungmenna sem ráðin hafa verið til starfa í fiskvinnslu.

Vinnueftirlitið bendir á að í reglugerðinni um vinnu barna og unglinga sé að finna ákvæði um hvers konar störf ungmenni megi vinna, áhættumat, leiðbeiningar og kennslu, vinnutíma, kvöld- og næturvinnu og hvíldartíma. Meðal annars sé kveðið á um að ungmenni undir 18 ára aldri megi ekki vinna við eða með hættulegar vélar og tæki eða við einstaklingsbundna ákvæðisvinnu þar sem vinnuhraði ákvarðist af vélbúnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×