Innlent

Sakamaður skal framseldur

Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi.
Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi.
Sakamaður skal framseldur til Póllands, samkvæmt dómi Hæstaréttar. Maðurinn sem um ræðir á eftir að afplána refsingu sem hann var dæmdur til í heimalandi sínu fyrir líkamsárásir og hylmingu.

Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða þrjá dóma fyrir líkamsárásir, þar af tvo fyrir meiri háttar líkamsárásir. Í tveimur tilvikum var dæmt að hann hefði framið líkamsárásirnar í félagi við aðra. Í fjórða dómnum var hann sakfelldur fyrir hylmingu. Samtals var maðurinn dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Pólsk yfirvöld höfðu krafist þess að maðurinn yrði framseldur til föðurlandsins, svo að hægt væri að láta hann afplána refsingu sína. Innanríkisráðherra tók þá ákvörðun í júní síðastliðnum að fallast á kröfuna, en Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þá ákvörðun úr gildi. Dómurinn lagði meðal annars til grundvallar að langur tími sé liðinn frá því að maðurinn braut af sér, auk þess sem hann hafi verið búsettur hér í fimm ár. Þá sé hann í sambúð og eigi barn með sambýliskonu sinni, auk þriggja fósturbarna.

Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi og þar með stendur ákvörðun innanríkisráðherra.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×