Innlent

Beindi nýjum fyrirspurnum til allra ráðherra

Forsætisráðherra gat ekki svarað fyrirspurn þingmanns um verktakagreiðslur til sérfræðinga í ráðuneytum. Þingmaður lét ekki þar við sitja heldur beindi nýjum fyrirspurnum til allra ráðherra í ríkisstjórninni.

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins lagði fram fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra um hversu margir væru starfandi á verktakasamningum í stjórnarráðinu, sundurgreint eftir ráðuneytum. Þarna er um að ræða alla launaða sérfræðinga og starfsmenn sem eru verktakar en ekki fastráðnir starfsmenn.

Samkvæmt þingsköpum þurfa skrifleg svör að berast forseta þingsins innan tíu virkra daga. Í skriflegu svari forsætisráðherra segir að „fyrirspurnir sem beinast að öllum ráðuneytum eru sjaldan þess eðlis að þeim verði svarað í stuttu máli og nánast er útilokað að svara slíkum fyrirspurnum innan tíu virkra daga frá því að fyrirspurn er leyfð."

Með öðrum orðum, forsætisráðherra getur ekki svarað fyrirspurn þingmannsins.

Einhver gæti talið að tiltölulega einfælt væri að fá þessar upplýsingar t.d með einföldum tölvupóstsamskiptum við ráðuneytisstjóra í viðkomandi ráðuneytum. Forsætisráðherra virðist ekki hafa talið sér fært að útvega upplýsingarnar á tíu virkum dögum.

Vigdís Hauksdóttir lét ekki þar við sitja heldur sendi inn skriflega fyrirspurn til hvers og eins ráðherra þar sem hún spyr um verktakagreiðslur í viðkomandi ráðuneyti. Svar ætti að berast frá viðkomandi ráðherrum innan tíu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×