Innlent

Meira svigrúm veitt í héraði

Joaquín Almunia vill að samkeppnisyfirvöld í Brussel haldi afskiptum sínum af minni verkefnum í sveitarstjórnum og borgum „í algjöru lágmarki“ og einbeiti sér að samkeppnismálum sem hafa bein áhrif á sameiginlega markaðinn. Mynd/AP
Joaquín Almunia vill að samkeppnisyfirvöld í Brussel haldi afskiptum sínum af minni verkefnum í sveitarstjórnum og borgum „í algjöru lágmarki“ og einbeiti sér að samkeppnismálum sem hafa bein áhrif á sameiginlega markaðinn. Mynd/AP
Samkvæmt nýjum tillögum innan framkvæmdastjórnar ESB verður sveitarfélögum, borgum og héruðum innan sambandsins auðveldað að styrkja og niðurgreiða verkefni í heimabyggðinni. Styrkir til minni verkefna, svo sem byggingar sundlauga, verða þá ekki litnir sömu augum og ríkisstyrkir.

 

„Mér sýnist augljóst að sum þessara verkefna hafi lítil áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna og lítil efni til að skekkja samkeppni,“ segir Joaquín Almunia, framkvæmdastjóri samkeppnismála hjá ESB.

 

Þessi breyting ætti að leiða til talsvert minni afskipta samkeppniseftirlitsins í Brussel (eða Eftirlitsstofnunar ESA) af daglegum rekstri sveitarfélaga í aðildarríkjunum. Með þessu dregur úr kröfunni um að minni verkefni séu boðin út á öllu efnahagssvæðinu.

Samkvæmt frétt Euractiv telur starfsfólk framkvæmdastjórnar ESB að betur fari á því að um þessi mál sé vélað á neðri stjórnsýslustigum. Hún vilji fremur einbeita sér að veigameiri samkeppnismálum. Samkeppnisreglur ESB gilda innan EES. Breytingin hefði því bein áhrif á Íslandi.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×