Innlent

Háloftasýning við Austurvöll

MYND/Stefán Karlsson.
Tugir sjálfboðaliðar héngu í 50 metra hæð yfir Austurvelli í gær á æfingu spænska fjöllistahópsins La Fura dels Baus fyrir opnunaratriði Listahátíðar í Reykjavík. Breyta þarf flugumferð yfir miðborginni á meðan á sýningu stendur.

Listahátíð í Reykjavík hefst nú um helgina. Formlegt opnunaratriði hátíðarinnar verður mikið sjónarspil, þar sem katalónski fjöllistahópurinn La Fura dels Baus sýnir á Austurvelli.

Um sextíu íslenskir sjálfboðaliðar taka þátt í sýningunni, en í einu atriðinu eru 42 sjálfboðaliðar hífðir upp í 50 metra hæð. Það er langtum hærra en nærliggjandi byggingar og hafa flugmálayfirvöld látið breyta venjulegum flugleiðum yfir miðborginni á meðan á sýningunni stendur.

Að sögn Steinunnar Þórhallsdóttur, kynningarstjóra Listahátíðar, var enginn hörgull á fólki sem vildi láta kippa sér af jörðinni.

„Við fengum mjög fljótlega þann fjölda sem okkur vantaði og lokuðum þá fyrir umsóknir," segir hún. „Við auglýstum ekki víða heldur létum við þetta meira spyrjast út og það gekk mjög vel."

Flestir sjálfboðaliðanna eru að sögn Steinunnar dansarar, dansnemar, félagar úr í íslenska fjöllistahópnum Sirkus Sóley og leikarar. Æfingar hafa gengið vel, en tveir sjálfboðaliðar hættu að vísu við þátttöku eftir fyrstu æfinguna í Tjarnarbíói.

„Á miðvikudag var fyrsta æfingin með sjálfboðaliðunum. Þá sýndu spænsku listamennirnir hvað atriðið fæli í sér og einn eða tveir skiptu um skoðun í kjölfarið. En það kom ekki að sök; það er mikil áhersla lögð á öryggi sjálfboðaliðanna og þess gætt að öllum líði vel."

Sviðslistahópurinn La Fura dels Baus á sér um þrjátíu ára sögu; hann spratt upphaflega upp sem götuleikhús í Barcelona en hefur síðan þá sýnt fyrir milljónir áhorfenda um víða veröld. Hópurinn flutti opnunaratriði á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 og hefur síðan sett upp leiksýningar, óperur og útiatriði með sínum hætti þar sem allir miðlar koma saman: leikhús, rokktónlist, loftfimleikar, kvikmyndir og dans. Sýning hópsins á Listahátíð verður aðeins flutt einu sinni, laugardaginn 21. maí klukkan 15 á Austurvelli. Atriðið tekur um 40 mínútur.

bergsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×