Heildarraforkukostnaður hjá heimilum landsins hefur hækkað umtalsvert frá því í júní 2010, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ. Mest er hækkunin hjá viðskiptavinum Orkuveitu Reykjavíkur en heildarraforkukostnaður þeirra hefur hækkað um 26 prósent miðað við 4.000 kWst. notkun á ári.
Kostnaður hjá heimilum á svæði HS orku hefur hækkað minnst eða um fjögur prósent miðað við sambærilega notkun.
Allir raforkusalar hækkuðu gjaldskrár sínar nú í sumar, að því er segir í fréttatilkynningu frá ASÍ. Mesta hækkunin var 20 prósent hjá Orkuveitu Reykjavíkur en minnsta hækkunin var hjá HS veitum, 3,6 prósent.
Einnig hafa allar dreifiveiturnar hækkað hjá sér gjaldskrána síðan í fyrrasumar. Mesta hækkunin var hjá Orkuveitu Reykjavíkur en minnsta hækkunin var hjá Rafveitu Reyðarfjarðar.
Hjá viðskiptavinum RARIK/Orkusölunnar í þéttbýli hefur raforkukostnaður einnig hækkað umtalsvert eða um níu prósent. Rafmagnsreikningurinn á svæði Orkubús Vestfjarða í þéttbýli hefur hækkað um 8 prósent.- ibs
26 prósenta hækkun hjá OR
