Lífið

Jakob Frímann gerist trúbador

Jakob Frímann Magnússon kemur fram sem trúbador á mikilli hátíð á Obladí Oblada um næstu helgi. fréttablaðið/gva
Jakob Frímann Magnússon kemur fram sem trúbador á mikilli hátíð á Obladí Oblada um næstu helgi. fréttablaðið/gva
„Ég geng að þessu kvíðalaust sem öðru. Maður á aldrei að vera hræddur við að ögra sjálfum sér,“ segir Jakob Frímann Magnússon.

Hann stígur á svið með kassagítar á trúbadorahátíð sem Stuðmaðurinn Tómas M. Tómasson skipuleggur og verður haldin í fyrsta sinn á skemmtistaðnum Obladí Oblada um næstu helgi. Jakob Frímann hefur lítið gert af því að bregða sér í trúbadoragírinn en ákvað að gera undantekningu í þetta sinn. „Þetta gerist helst bak við luktar dyr á einkaheimilum. En þegar Tómas stórvinur minn Tómasson hringir segi ég undantekningarlaust „já“.“ Jakob hefur reyndar áður komið fram á Obladí en þá með Bítladrengjunum blíðu, sem spila þar á fimmtudagskvöldum.

Fyrsta hljóðfærið sem Jakob eignaðist var gítar og því er hann ekki ókunnur hljóðfærinu þrátt fyrir að vera þekktari sem hljómborðsleikari Stuðmanna. „Faðir minn blessaður kenndi mér fyrstu gripin. Svo var ég fyrsti gítarleikari Stuðmanna. Ég geymi alltaf gítar einhvers staðar nálægt mér og ég hef samið mörg lög á gítar.“

Spurður hvaða lög hann ætli að syngja segir Jakob: „Ég hef ekki haft tíma til að leiða hugann að því enn þá. Fyrst ætla ég að glöggva mig á vinnukonugripunum og síðan ætla ég að sjá hvort ég nái ekki í munnörpu um hálsinn til að verða alveg ekta.“

Á meðal annarra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni verða Skúli mennski, Gímaldin, Gunnar Þórðarson, Magnús Einarsson, Hjalti Þorkelsson, Egill Ólafsson, Kormákur Bragason, Andrea Gylfadóttir og Eggert feldskeri.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.