Um tugur manna vinna að því að dæla svartolíu upp úr sjónum við Örfirisey en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu tókst að hefta útbreiðslu olíunnar með flotgirðingum.
Þá er veður hagstætt en um tíu slökkviliðsmenn eru að störfum ásamt mannskap frá Reykjavíkurhöfn og Olíudreifingu. Togarinn, sem olían lak úr heitir Eldborg og er gerður út frá Eistlandi, en það var verið að dæla svartolíu um borð í skipið þegar óhappið varð um klukkan þrjú í dag.
Varðstjóri slökkviliðsins segist vongóður um að slökkviliðsmönnum takist að hreinsa mestu olíuna upp. Það hafi í það minnsta gengið vel hingað til. Búist er við að slökkviliðið verði eitthvað fram eftir degi við hreinsunina en magnið sem fór ofan í sjóinn er talið vera á bilinu 500 til 3000 lítrar.
Vísir greindi frá því fyrr í dag að fréttamönnum hefði ekki verið leyft að mynda aðgerðirnar. Það hefur breyst en fréttamaður Stöðvar 2 er þar nú og verður nánar fjallað um málið í kvöldfréttum.
Hægt er að skoða nokkrar myndir frá hreinsunarstörfum hér fyrir neðan.