Erlent

Facebook-tvíburarnir ætla ekki að áfrýja

Bræðurnir Tyler og Cameron, eiga mikinn pening þessa dagana en hlutur þeirra í Facebook er metinn á yfir 11,5 milljarða króna.
Bræðurnir Tyler og Cameron, eiga mikinn pening þessa dagana en hlutur þeirra í Facebook er metinn á yfir 11,5 milljarða króna. Mynd/AFP
Cameron og Tyler Winklevoss, tvíburabræðurnir sem telja sig eiga hugmyndina að baki Facebook, hafa ákveðið að áfrýja ekki úrskurði Alríkisdómstóls til Hæstaréttar.

Dómstóllinn vísaði máli þeirra frá í apríl síðastliðnum en þeir vildu rifta sáttargjörð sem þeir gerðu við Mark Zuckerberg, stofnanda síðunnar, vegna deilna um höfundarrétt.

Saga málsins er rakin í Hollywoodmyndinni The Social Network.

Tvíburarnir fullyrða að þeir hafi ráðið Zuckerberg til þess að ljúka við forritun á samskiptasíðunni ConnectU árið 2003. Zuckerberg hafi hins vegar stolið hugmyndinni. Hann hafi sett Facebook í loftið í febrúar 2004, í stað þess að efna samkomulagið við tvíburana. Zuckerberg neitar ásökununum.

Fyrir tveimur árum náðust svo sættir í málinu sem fólust í því að tvíburarnir fengu greiddar 20 milljónir bandaríkja dala, um 2,2 milljarða króna, í reiðufé og 45 milljónir bandaríkjadala, rúmlega 5 milljarða króna, í hlutabréfum í Facebook.

Í úrskurði Alríkisdómstólsins sagði að þeir hafi, hjálp lögmanna og fjármálaráðgjafa, gert samning sem virðist vera mjög hagstæður fyrir þá. Dómurinn sá enga ástæðu til að rifta þeim samningi.

Það má geta þess að 45 milljóna bandaríkjadala hlutur þeirra bræðra í Facebook er nú talinn vera meira en 100 milljón bandaríkjadollara virði, rúmlega 11,5 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×