Innlent

Hafna þúsundum ungmenna um sumarvinnu

Mynd/Vilhelm
Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Kópavogsbær hafna þúsundum ungmenna sem hafa sótt um sumarvinnu hjá sveitarfélögunum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að 3800 ungmenni 17 ára og eldri hafi sótt um sumarvinnu hjá borginni en ætlunin er að ráða 1900 - sem þó eru mun fleiri en í fyrra. Sautján ára ungmenni fá vinnu í fjórar vikur en eldri í sex til átta vikur.

Fjórtán ára unglingar fá enga vinnu hjá Vinnuskólanum í sumar en allir 15 og 16 ára sem skráðu sig fá vinnu, að sögn Magnúsar Arnars Sveinbjörnssonar skólastjóra. Fimmtán ára fá vinnu hálfan daginn í þrjár vikur en 16 ára fá vinnu allan daginn í þrjár vikur. Í Hafnarfirði sóttu um 800 ungmenni 17 ára og eldri um vinnu. Rúmlega 300 fá vinnu í sex til sjö vikur, allir unglingar á aldrinum 14 til 16 ára fá hlutavinnu í sex vikur. Í Kópavogi fær rúmur helmingur ungmenna 17 ára og eldri vinnu hjá bænum í fimm til átta vikur. Yngri aldurshóparnir fá allir vinnu í nokkra tíma á dag í sex vikur hjá Kópavogsbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×