Innlent

Segja stálvirki Hörpu vera í himnalagi

Myndin var tekin um miðjan apríl áður en glerhjúpur Hörpu var að fullu kominn upp. Nú hefur stálið verið sparslað og málað.Mynd/öh
Myndin var tekin um miðjan apríl áður en glerhjúpur Hörpu var að fullu kominn upp. Nú hefur stálið verið sparslað og málað.Mynd/öh
Fjöldi mynda hefur birst á vef Arkitektafélags Íslands á undanförnum vikum af stálvirki Hörpu á lokaspretti framkvæmdanna. Á sumum myndanna, sem teknar voru 17. apríl, gefur að líta ryð og tæringu á stálinu en eins og kunnugt er þurfti að taka niður stálvirki á suðurhlið hússins þegar upp komst um framleiðslugalla í stálinu síðasta sumar.

Það eru arkitektarnir Örnólfur Hall og Guðmundur Kr. Guðmundsson sem tóku myndirnar en með þeim hafa þeir birt pistla þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við frágang hússins.

„Ég fylgdist með vinnubrögðunum á síðustu metrunum. Þá virtist vera rosalegur hamagangur við að koma þessu í gagnið fyrir opnunina. Ég sem arkitekt myndi ekki hrósa þessum vinnubrögðum,“ segir Örnólfur. Þá telur hann einkennilegt að stálið hafi ekki verið galvaníserað og að ljóst sé að misbrestur hafi orðið á eftirliti með framleiðslu þess í Kína eins og komið hafi í ljós þegar suðurveggurinn var tekin niður.

Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri verkefnisins hjá Íslenskum aðalverktökum, gefur hins vegar ekki mikið fyrir þessa gagnrýni. „Þetta stál er allt innanhús og ryðgar ekki. Áður en glerið var sett upp stóð stálið bert og þá ryðgaði það eins og eðlilegt er en nú þarf engar áhyggjur að hafa af því,“ segir Sigurður og bætir við: „Ég fullyrði það fullum fetum að þetta er ekki áhyggjuefni. Ég er raunar bara gapandi á þessari umræðu,“ segir Sigurður og bendir á að víða á Íslandi megi finna ómeðhöndlað stál innandyra með fínum árangri, svo sem í Listasafni Reykjavíkur.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×