Innlent

Allar heimildir verði seldar á uppboðum

Hreyfingin vill að allar aflaheimildir verði boðnar upp innan sveitarfélaga.fréttablaðið/jse
Hreyfingin vill að allar aflaheimildir verði boðnar upp innan sveitarfélaga.fréttablaðið/jse
Þingflokkur Hreyfingarinnar kynnti í gær frumvarp sitt til laga um stjórn fiskveiða.

Þar er meðal annars gert ráð fyrir því að öllum aflaheimildum verði ráðstafað í gegnum uppboðskerfi sem á að tryggja að hámarksverð fáist fyrir nýtingarréttinn. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að með þessu sé verið að koma til móts við kröfur almennings og auk þess verði hagkvæmni gætt.

„Hagkvæmni er alltaf best tryggð með gegnsæi og samkeppni því fleiri sem keppa um hituna, því betra,“ segir Þór. „Þegar allir þurfa að kaupa aflaheimildir á uppboði kemur í ljós hvar hagkvæmustu veiðarnar eru.“

Allar heimildir verða samkvæmt því boðnar upp í sveitarfélögunum, en einnig hafa sveitarfélögin heimild til að selja heimildir til aðila utanbæjar, með tíu prósenta álagi á kaupverð.

Þá skal allur sjávarafli seldur á innlendum markaði, en þó er heimilt að selja afla beint til innlendrar fiskvinnslu. Þá skal verð miðast við markaðsverð. Með því telur Hreyfingin að um 800 til 1.000 ný störf skapist við fiskverkun.

Meðal annarra lykilatriða í frumvarpinu er ákvæði um stórauknar strandveiðar þar sem heildarafli verður 40.000 tonn af botnfiski og tímabil lengt um tvo mánuði frá því sem nú er.

Þá verði allar skuldir sem útgerðir hafa stofnað til vegna kvótakaupa færðar inn í sérstakan kvótaskuldasjóð, sem muni greiðast niður með fimm prósenta hlut af söluandvirði veiðiheimilda. Aðspurður segir Þór að honum finnist þær hugmyndir sem fram koma í frumvarpi stjórnarinnar vera til málamynda.

Þór segist vona að frumvarp Hreyfingarinnar verði lagt fyrir þjóðina samhliða stjórnarfrumvarpinu.

„Við viljum að þjóðin fái alvöru valkosti í þessum efnum.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×