Innlent

Hefur blendnar tilfinningar gagnvart komu Ásmundar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hörð andstaða Framsóknarflokksins við ESB hafði úrslitaáhrif þegar Ásmundur Einar Daðason ákvað að ganga í flokkinn í dag. Formaður Framsóknar býður Ásmund Einar „velkominn heim." Guðmundur Steingrímsson, sem tilheyrir frjálslyndum armi flokksins, hefur áhyggjur af þróun mála.

„Núna á síðasta flokksþingi breytti flokkurinn um stefnu í Evrópusambandsmálum og leggst nú gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og ég trúi því að nú sé farvegur fyrir ungt og öflugt fólk til þess að vinna að þeim hugsjónum sem hafa verið í deiglunni síðustu tvö ár," segir Ásmundur Einar Daðason, sem gekk í Framsóknarflokkinn í dag.

Eru þetta ekki aðallega Evrópumálin. Þau réðu úrslitum í þínum huga, ekki satt? „Evrópumálin eru gríðarlega stór mál og eru það í mínum huga. Það er alveg rétt, en það eru fleiri mál eins og atvinnumálin og skuldavandi heimilanna, en Framsóknarflokkurinn hefur tekið afar jákvæða afstöðu í þessum málaflokkum," segir Ásmundur Einar.

Er áfram á móti NATÓ


Hvað með NATÓ? Nýjasti meðlimur Framsóknar, sem skartaði merki flokksins í brjóstinu strax fyrsta daginn, er á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu og styður áfram þingsályktunartillögu um úrsögn Íslands úr bandalaginu sem er á skjön við afstöðu nýrra félaga hans í Framsóknarflokknum. „Sú þingsályktunartillaga fer fyrir þingið og við sjáum hverjar lyktir verða."

Þú kemur úr Vinstri grænum sem er vinstrisinnaðasta stjórnmálaaflið á Íslandi. Er það til marks um að Framsóknarflokkurinn sé að færast lengra til vinstri? „Forystumenn Framsóknarflokksins hafa verið að leggja áherslu á lausnir á skuldavanda heimilanna og (ákveðna stefnu) í atvinnumálum. Og gegn ESB-aðild. Þannig að forysta flokksins er ekki sú sama í dag og fyrir tveimur árum. Það er nokkuð ljóst," segir Ásmundur Einar, án þess að svara spurningunni beint.

„Ég held hann sé kominn heim
"

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fagnar nýjum liðsstyrk. „Það var mjög skemmtileg stund þegar hann kom inn í þingflokkinn og fór yfir það með okkur hvers vegna hann hefði tekið þessa ákvörðun. Rakti í raun stefnu okkar undanfarin ár og hvernig hann hefði átt samleið með okkur í öllum málum."

Var hann þá ekki í vitlausum flokki allan tímann? „Jú, ætli það sé ekki frekar svoleiðis. Ég held hann sé bara kominn heim," segir Sigmundur Davíð.

Fyrrverandi forystumenn Framsóknarflokksins settu mikinn kraft í það á síðari hluta síðustu aldar að nútímavæða flokkinn og gera hann eftirsóknarverðari í augum frjálslynds, borgaralega þenkjandi fólks. Það er kannski til marks um það að Framsóknarflokkurinn sé að breytast, að harðlínu ESB-andstæðingur sé genginn til liðs við flokkinn, en Ásmundur Einar er formaður Heimssýnar, sem hefur það að sínu eina stefnumáli að halda Íslandi utan Evrópusambandsins.

Íhugar sína stöðu en er ekki á förum


Guðmundur Steingrímsson sem tilheyrir frjálslyndari armi þingflokks Framsóknarflokksins segist hafa áhyggjur af ásýnd flokksins. „Það eru svona blendnar tilfinningar. Á sama tíma og ég býð Ásmund Einar velkominn í þingflokkinn tel ég nokkuð líklegt að ég deili ekki mörgum grundvallarsjónarmiðum með Ásmundi. Það er mér áhyggjuefni, hvort að mínar hugsjónir eigi stað í Framsóknarflokknum, þegar að formaður Heimssýnar, maður sem ég er ekki sammála um grundvallarmál, skuli telja Framsóknarflokkinn hafa þá ásýnd að hann eigi samleið með honum."

Guðmundur ætlar samt að berjast fyrir sínum hugsjónum innan Framsóknarflokksins. „Ég held áfram í Framsóknarflokknum," hann.

Óttastu fylgistap Framsóknarflokksins hjá þeim hópi fólks sem deilir sömu lífsviðhorfum og þú, t.d miðjusækið, frjálslynt fólk? „Já, ég óttast það," segir Guðmundur , en þess má geta að hann og Ásmundur Einar eru í sama kjördæmi. Guðmundur fékk því ekki aðeins nýjan samherja í dag heldur mögulega keppinaut í næsta prófkjöri. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×